15. apríl 2014

rýmið 60

Ég veit engin deili á arkitekt eða hönnuði þessa rýmis sem er einhvers staðar á Spáni. Þessi stofa var áður verönd sem var breytt til að stækka húsið. Hvít húsgögn (Ikea) og hlutlausir tónar gefa henni ferskan blæ og náttúrleg steinahleðsla og bitar í lofti skapa jafnvægi. Útkoman er vægast sagt sumarleg.

mynd:
El Mueble


14. apríl 2014

etnískar mottur

Fyrir fjölmörgum árum síðan í einhverri allsherjar tiltekt þá henti eiginmaðurinn óvart bunka af tímaritum sem ég ætlaði að geyma. Í þessum tiltekna bunka var erlent tímarit sem var með innliti á afskaplega fallegt heimili í annaðhvort New Mexico eða Arizona þar sem stíllinn á húsgögnunum var hrár, ósléttir veggir hvítmálaðir og svo voru mottur og annar textíll í etnískum stíl (líklega Navajo). Eftir öll þessi ár get ég enn þá kallað fram einstaka myndir í innlitinu í huga mér enda var ég gjörsamlega heilluð af þessu húsi.

Það sem sérstaklega höfðaði til mín var jafnvægið sem náðist í innanhússhönnuninni; ekkert var ofhlaðið eða ofskreytt. Í síðustu viku á ensku útgáfunni póstaði ég einni mynd frá búgarði Ralph Lauren, nánar tiltekið af innganginum í líkamsræktina (það var eina rýmið sem mér fannst flott), og hún minnti mig á innlitið.

Kilim-mottur.

Upp á síðkastið hefur þessi etníski stíll svolítið verið að toga í mig aftur og ég er farin að veita honum meiri athygli þegar ég er að fletta tímaritum eða skoða á netinu (þetta er hluti af myndum sem ég er búin að safna í möppu). Mig langar að eignast alla vega eina etníska mottu hvort sem hún yrði sett í stofuna eða bara í skrifstofuherbergið. Annaðhvort myndi ég velja stóra mottu eða þá að ég myndi leggja minni mottu ofan á náttúrulega mottu. Ég held að það gæti verið smart, sérstaklega þar sem mig langar í etníska mottu með ljósum tónum, einhverja sem er ekki of litrík því ég veit að ég myndi fljótt fá leið á því. Annars finnst mér stíliseringin hjá West Elm sem sést á efstu myndinni vera töff, þ.e. að raða bara litlum mottum saman.

Ef þið eruð í etnískum hugleiðingum þá vona ég að þessar myndir veiti innblástur.

Notuð tyrknesk kilim-motta.
myndir:
1: West Elm stílisering af blogginu Lotus & Fig / 2: The Marion House Book / 3: Little Dog Vintage á Etsy / 4: Marie Claire Maison af blogginu The Style Files / 5: Cultiver af blogginu The Design Files


10. apríl 2014

falleg bleik vorblóm

Ein af mínum uppáhalds bókum, sem ég hef nefnt oftar en einu sinn á bloggunum, er Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo. Bókin situr á borðinu mínu og veitir mér endalausan innblástur. Í vorpósti dagsins langar mig að gefa höfundinum enn meira pláss á blogginu. Þessar þrjár myndir eftir Ngo eru úr fyrsta kaflanum sem fjallar um vorblóm. Stílisering blómaskreytinganna (kirsuberjagreinar, maríusóleyjar og hjartablóm) var í höndum Nicolette Owen. Ég er ekkert að þýða sjálfar tilvísanirnar úr bókinni, ég leyfi þeim bara að standa á ensku.

The Japanese custom of viewing cherry blossoms, hanami, dates back for centuries … Have your own hanami with an exuberant arrangement of cherry tree branches at home. What better way to celebrate spring than to wake up under a cloud of cherry blossoms?

úr Bringing Nature Home


The poppy anemones, first cultivated in the sixteenth century are models of versatility. Throw a bunch of bright purple [ones] in a simple glass jar to add a cheerful note to a child's room, or put a few elegant stems in sleek white ceramic bottles to admire their subtle loveliness from every angle.

úr Bringing Nature Home


Bleeding heart is a spring ephemeral plant that starts blooming in April and becomes dormant when the heat of the summer sets in. The heart-shaped blooms dangling on arching stems make charming cut flowers, and the finely divided foliage is a thing of beauty on its own.

úr Bringing Nature Home

myndir:
Ngoc Minh Ngo, úr bókinni Bringing Nature Home, bls. 16, 19, 35, gefin út af Rizzoli


9. apríl 2014

West Midlands | The Granary - kofi til leigu

Hafið þið áhuga á að skoða West Midlands svæðið? Í sveitinni austan við borgina Birmingham er hægt að leigja endurgerðan kofa sem kallast The Granary og er í lokuðum einkagarði sem tilheyrir sveitabýlinu Dove House, sem var byggt í kringum 1350. Svefnherbergin eru þrjú (svefnaðstaða fyrir 5) og það er rúmgott eldhús/borðstofa og setustofa. Allt er smekklega innréttað og öll heimilistæki eru til staðar. Rétt hjá er þorpið Shustoke og bærinn Coleshill.

The Granary er í norðurhluta Warwickshire og það er stutt í hraðbrautir og út á Birmingham-flugvöll. Ef haldið er í suðurátt er komið inn í Shakespeare's Country, eins og svæðið kallast, en þar er að finna ákaflega fallega bæi eins og Stratford-upon-Avon, Leamington Spa og Warwick.
(Sjá einnig The Lodge sem er með einu svefnherbergi (svefnaðstaða fyrir 4)).

myndir:
Lísa Hjalt


Pin It button on image hover