laugardagur, 12. júlí 2014

góða helgi

Ég er einum degi of sein með þennan póst. Ég átti afmæli í gær og hélt mig að mestu fjarri tölvunni til að njóta sólarinnar og nýju bókanna minna. Ég verð í bloggfríi næstu tvær vikurnar. Ég er að vonast til að kynnast svæðinu hér í kring betur og að komast út að strönd því það er orðið langt síðan ég dýfði tánum í sjóinn.

Ég óska ykkur góðrar helgar!

mynd:
El Mueble


fimmtudagur, 10. júlí 2014

innlit: hjá hönnuðinum Naja Munthe í Frederiksberg

Þegar innlit hafa birst á mörgum bloggum þá reyni ég helst að forðast að birta þau á mínu, en sum eru bara þannig að þau láta mig ekki í friði og ég stend sjálfa mig að því að skoða myndirnar reglulega. Þetta innlit í lúxusíbúð danska tískuhönnuðarins Naja Munthe í Frederiksberg er eitt þeirra. Þetta er ekki hefðbundið innlit því myndirnar birtust upphaflega í bók hennar Fashionable Living. Eins og sjá má er heimili hennar allt hið smekklegasta. Ég er sérstaklega hrifin af svörtu gluggarömmunum og ljósakrónunum. Þar sem ég er yfirlýst bókakona þá finnst mér líka alltaf heillandi að sjá stafla af bókum innan um skrautmuni.
myndir:
Morten Koldby úr bókinni Fashionable Living eftir Naja Munthe, af blogginu Agua Marina Blog


miðvikudagur, 9. júlí 2014

Eftirminnilegt sumar

Ég ætlaði að birta innlit á blogginu í gær en allt í einu var klukkan orðin ellefu um kvöld og augnlokin byrjuð að síga. Svona er þetta bara stundum, en eins og ég hef þegar bent á þá læt ég ensku útgáfu bloggsins ganga fyrir. Um daginn var ég ég að hugsa um síðasta sumar (svo margt hefur breyst síðan þá) og hversu upptekin ég var af lavender. Í minningunni verður það bara lavender-sumarið mikla. Þetta sumar er öðruvísi því nú sé ég ekki neitt nema rendur án þess að ég sé að leita eitthvað sérstaklega að þeim. Þetta safn af ljósmyndum lýsir ástandinu mjög vel.

Ég vona að sumarið leiki við ykkur!
myndir:
1: Justin Sullival fyrir Style Me Pretty Living • stílisering: Aaron Hartselle | 2: Olivia Kanaley - A Field Journal af Pinterest | 3: Nour El Nil ferðir af blogginu My Paradissi | 4: Howell Conant • Grace Kelly á Jamaica, 1955 af blogginu Classiq | 5: Ikea af Tumblr | 6: Scott Frances fyrir Architectural Digest, júlí 2013 | 7: Sarah - A Beach Cottage af blogginu The Style Files | 8: Ragnar Ómarsson fyrir Ikea Livet Hemma | 9: J.Crew júní 2014 bæklingur • fyrirsæta Cameron Russell


fimmtudagur, 3. júlí 2014

rýmið 68


Í apríl á ensku útgáfunni birti ég gamalt innlit á heimili hönnuðarins og bloggarans Mark D. Sikes í Hollywood Hills í Kaliforníu. Ég hélt að svo til allir í bloggheimum hefðu séð þetta innlit á sínum tíma og átti því ekki von á hversu vinsæll pósturinn varð. Hvað um það, Sikes og sambýlismaður hans eru búnir að gera breytingar á heimili sínu og þessi tiltekna mynd úr nýjasta hefti Veranda sýnir hluta stofunnar séð frá veröndinni. Mér finnst gluggarnir svo fallegir og ég er alltaf hrifin af stórum vösum með blómstrandi greinum.

mynd:
Roger Davies fyrir Veranda af bloggi Mark D. Sikes


Pin It button on image hover