22. apríl 2014

innlit: hlýlegt heimili í Danmörku


Ég var að leita að einhverju á Pinterest um daginn þegar ég rakst á myndina með hvítu hillunum hér að ofan og þegar ég sá glitta í hvít viðargólfborð þá vissi ég að þetta hlyti að vera skandinavískt heimili. Þegar ég svo opnaði tengilinn þá endaði ég á heimasíðu Femina og sá að eigandinn bar íslenskt nafn (innlitið er að vísu orðið gamalt þannig að ég veit ekki hver er núverandi eigandi). Persónulega er ég ekki hrifin af hvítmáluðum viðargólfborðum; ég er búin að sjá of mikið af þeim stíl í skandinavískum innanhússtímaritum. Eins og sést eru gólfborðin ómáluð í svefnherberginu og þau finnst mér mun fallegri. En stíllinn á heimilinu finnst mér hlýlegur og ég er sérstaklega hrifin af eldhúsinu.


myndir:
Isak Hoffmeyer fyrir Femina (uppgötvað á síðu Abby Capalbo/Pinterest)


17. apríl 2014

kirsuberjatré í blóma á fallegum vordegi

Í dag ætlaði ég að birta aðrar myndir þar sem þemað er vorið (þetta er síðasti pósturinn í vorseríunni) en ég skipti um skoðun þegar ég sá myndina hér að ofan. Sonur minn, átta ára, tók hana. Við eyddum gærdeginum í sveitasælu í Derbyshire og á leiðinni heim varð hann örlítið bílveikur þannig að vinir okkar hleyptu okkur bara út hjá skólanum og við löbbuðum heim til að fá ferskt loft. Í allan gærdag var hann með kíkinn sinn á lofti að fylgjast með fuglalífinu og hann var að segja mér að hann langaði í upptökuvél. Rétt hjá húsinu okkar stendur þetta líka glæsilega kirsuberjatré sem er núna í fullum blóma og ég varð að staldra við og taka nokkrar myndir. Þegar hann spurði hvort hann mætti líka taka myndir þá sagði ég að sjálfsögðu já. Ég sá um ,manual'-stillingarnar fyrir hann og sýndi honum hvernig hann ætti að halda „réttri“ lýsingu (exposure) og leyfði honum svo að spreyta sig. Það var örlítill vindur í lofti og því var smá hreyfing í sumum myndunum (myndirnar að öðru leyti mjög flottar) en þessi fannst mér fullkomin. Það var hrein unun að fylgjast með honum munda vélina.

Ég óska ykkur gleðilegra páska!
myndir:
1: sonur minn / 2-4: Lísa Hjalt


15. apríl 2014

rýmið 60

Ég veit engin deili á arkitekt eða hönnuði þessa rýmis sem er einhvers staðar á Spáni. Þessi stofa var áður verönd sem var breytt til að stækka húsið. Hvít húsgögn (Ikea) og hlutlausir tónar gefa henni ferskan blæ og náttúrleg steinahleðsla og bitar í lofti skapa jafnvægi. Útkoman er vægast sagt sumarleg.

mynd:
El Mueble


14. apríl 2014

etnískar mottur

Fyrir fjölmörgum árum síðan í einhverri allsherjar tiltekt þá henti eiginmaðurinn óvart bunka af tímaritum sem ég ætlaði að geyma. Í þessum tiltekna bunka var erlent tímarit sem var með innliti á afskaplega fallegt heimili í annaðhvort New Mexico eða Arizona þar sem stíllinn á húsgögnunum var hrár, ósléttir veggir hvítmálaðir og svo voru mottur og annar textíll í etnískum stíl (líklega Navajo). Eftir öll þessi ár get ég enn þá kallað fram einstaka myndir í innlitinu í huga mér enda var ég gjörsamlega heilluð af þessu húsi.

Það sem sérstaklega höfðaði til mín var jafnvægið sem náðist í innanhússhönnuninni; ekkert var ofhlaðið eða ofskreytt. Í síðustu viku á ensku útgáfunni póstaði ég einni mynd frá búgarði Ralph Lauren, nánar tiltekið af innganginum í líkamsræktina (það var eina rýmið sem mér fannst flott), og hún minnti mig á innlitið.

Kilim-mottur.

Upp á síðkastið hefur þessi etníski stíll svolítið verið að toga í mig aftur og ég er farin að veita honum meiri athygli þegar ég er að fletta tímaritum eða skoða á netinu (þetta er hluti af myndum sem ég er búin að safna í möppu). Mig langar að eignast alla vega eina etníska mottu hvort sem hún yrði sett í stofuna eða bara í skrifstofuherbergið. Annaðhvort myndi ég velja stóra mottu eða þá að ég myndi leggja minni mottu ofan á náttúrulega mottu. Ég held að það gæti verið smart, sérstaklega þar sem mig langar í etníska mottu með ljósum tónum, einhverja sem er ekki of litrík því ég veit að ég myndi fljótt fá leið á því. Annars finnst mér stíliseringin hjá West Elm sem sést á efstu myndinni vera töff, þ.e. að raða bara litlum mottum saman.

Ef þið eruð í etnískum hugleiðingum þá vona ég að þessar myndir veiti innblástur.

Notuð tyrknesk kilim-motta.
myndir:
1: West Elm stílisering af blogginu Lotus & Fig / 2: The Marion House Book / 3: Little Dog Vintage á Etsy / 4: Marie Claire Maison af blogginu The Style Files / 5: Cultiver af blogginu The Design Files


Pin It button on image hover