fimmtudagur, 18. september 2014

tískuljósmyndun: fyrirsætan Daria Werbowy

Mig langaði að halda áfram með eitthvað tískutengt á blogginu í dag en vildi samt hvíla tískupallana þar sem ég hef ekki gefið mér tíma til að kíkja á meira frá tískuvikunni í Mílanó. Ég fékk svo þá hugmynd að raða saman nokkrum af mínum uppáhalds tískuljósmyndum með hinni vinsælu Daria Werbowy, sem er ein af þessum ofurfyrirsætum sem skilar alltaf sínu og prýðir reglulega forsíður og auglýsingaherferðir. Hún er svo fjölbreytileg og svo þykir henni víst gífurlega gaman að ferðast sem er kannski ástæða þess að hún er oft í ljósmyndum sem teknar eru á framandi stöðum. Mig minnir að ég hafi lesið einhver staðar að hún taki stundum að sér verkefni á miðju ferðalagi, en það er kannski eina leiðin fyrir tískutímaritin að ná henni. Það er ástæða fyrir efstu myndinni því stundum finnst mér gaman að sjá sömu flíkurnar í mismunandi tískuþáttum til að bera saman stíliseringuna. Myndin sýnir hlutlausan bakgrunn þar sem Céline toppurinn sem Daria klæðist fær að njóta sín. Þessi sami toppur var svo til dæmis notaður í ljósmyndaþætti í Vogue US (sem ég deildi á ensku útgáfu bloggsins), en þar var það fyrirsætan Sasha Pivovarova sem klæddist honum og innblástur var sóttur til listakonunnar Georgia O'Keeffe. (Allar nánari upplýsingar um myndirnar - ljósmyndara, stílista o.s.frv. - er að finna neðst í póstinum.)
myndir:
1: Daniel Jackson fyrir Harper's Bazaar US, febrúar 2014 - The Edge of Spring • stílisering Alastair McKimm af blogginu Just Angelina | 2-3: Patrick Demarchelier fyrir Vogue UK, júní 2009 - Indian Summer • stílisering Lucinda Chambers af the Fashion Spot + Pleasurephoto | 4: Mert Alas + Marcus Piggott fyrir Interview, september 2013 • stílisering Karl Templer af Models.com | 5: Cass Bird fyrir Maiyet, auglýsingaherferð vor 2013 af blogginu Classiq | 6: Mikael Jansson fyrir H&M, auglýsingaherferð vetur 2012 • stílisering George Cortina | 7: Peter Lindbergh fyrir Vogue US, janúar 2011 - Brief Encounter (með ameríska leikaranum David Strathairn) • stílisering Grace Coddington af síðu Fashion Editorials | 8: Paolo Roversi fyrir Vogue Paris, mars 2004 • stílisering Carine Roitfeld af Pinterest | 9: Gui Paganini fyrir Vogue Brazil, mars 2007 af blogginu The Daria Files Gallery


miðvikudagur, 17. september 2014

tískuvikan í Mílanó + London: Gucci + Paul Smith

Nú er tískuvikan í Mílanó hafin en ég bíð alltaf spennt eftir henni. Ítölsku tískuhúsin geta eiginlega ekki klikkað. Gucci kynnti sína línu í dag en þar er Frida Giannini við völd og hún var innblásin af 8. áratugnum. Það var margt fallegt í línunni hennar og mikið um föt sem eiginlega eru alltaf í tísku, eða hverfa í smá stund og koma svo aftur. Litapalettan innihélt eitthvað fyrir alla og gallaefni og rússkinn voru áberandi. Og ekki má gleyma öllum fallegu aukahlutunum; dásamlegu úrvali af beltum, töskum, klútum og skófatnaði.

Mig langaði að birta þessa tvo kjóla í fullri stærð en það voru ekki til myndir af þeim í stærri upplausn, því miður. Dressið hér að neðan er svolítið skemmtilega náttfatalegt. Ég er lúmskt skotin í því og fíla mynstrið.
Ég get ekki sagt að ég sé búin að skoða allt sem birtist á tískupöllunum í London en það sem ég gaf mér tíma til að renna í gegnum höfðaði ekkert sérstaklega til mín. Það var eiginlega bara PAUL SMITH sem heillaði mig með alls kyns röndum og þægilegum og einföldum flíkum.

myndir:
1-5: Gucci vor 2015 | 6-11: Paul Smith vor 2015 af vefsíðunni Style.com


mánudagur, 15. september 2014

innlit: heimili listakonunnar Pepa Poch á Spáni

Þegar ég rekst á heimili listamanna sem eru jafn falleg og þetta þá fæ ég allt að því skjálfta í hnén. Hið vinsæla tímarit Lonny er ókeypis á netinu og septemberútgáfan er öll hin glæsilegasta. Þau heimsóttu katalónsku listakonuna Pepa Poch sem býr í hvítmáluðu húsi á Costa Brava á Spáni með útsýni út á Miðjarðarhaf. Ég allt að því slefaði þegar ég sá pússuðu gólfborðin, svo ég minnist nú ekki á loftbitana sem hafa verið málaðir með bláum tón. Það eru einmitt þessir bláu tónar hér og þar um húsið og í listaverkum Poch sem heilla mig. Ég er auk þess ákaflega hrifin af svona hráum stíl, þar sem steinn og viður leika aðalhlutverk, sérstaklega þegar hann er hlýlegur eins og á þessu heimili. Það eru fleiri myndir á vefsíðu Lonny ef þið viljið sjá meira og að sjálfsögðu smá viðtal við listakonuna.
myndir:
Albert Font fyrir Lonny, september 2014


Pin It button on image hover